Home / Biblíuefni / Endurkoma Krists

Endurkoma Krists

Jesús lofaði lærisveinum sínum að hann kæmi aftur. Biblían segir: Jh 14:1-3 „Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“

Englarnir gáfu loforð um að Jesús kæmi aftur. Biblían segir: P 1:10-11 „Er þeir störðu til himins á eftir honum, þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum og sögðu: Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.“

Hvernig mun Jesús birtast? Biblían segir: Lk 21:27 „Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð.“

Hve margir munu sjá hann þegar hann kemur? Biblían segir: Opb 1:7 „Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum.“

Hvað munum við sjá og heyra þegar hann kemur? Biblían segir: 1Þ 4:16-17 „Því að sjálfur Drottinn mun stíga niður af himni með kalli, með höfuðengils raust og með básúnu Guðs, og þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa. Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu.“

Hversu augljós verður endurkoman? Biblían segir: Mt 24:27 „Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins.“

Hvaða viðvaranir hefur Jesús gefið okkur svo við munum ekki láta blekkjast varðandi endurkomuna? Biblían segir: Mt 24:23-26 „Ef einhver segir þá við yður: Hér er Kristur eða þar, þá trúið því ekki. Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti. Sjá, ég hef sagt yður það fyrir. Ef þeir segja við yður: Sjá, hann er í óbyggðum, þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: Sjá, hann er í leynum, þá trúið því ekki.“

Veit nokkur nákvæmlega um tíma endurkomu Krists? Biblían segir: Mt 24:36 „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“

Vitandi hversu mannlegt það er að fresta hlutunum, hvað segir Jesús okkur að gera? Biblían segir: Mt 24:42 „Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.“

Hvaða viðvörun hefur Jesús gefið svo að þessir miklu atburðir komi okkur ekki að óvörum? Biblían segir: Lk 21:34-36 „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð. Vakið því allar stundir og biðjið.“

Hvers vegna dregst endurkoman svona lengi? Biblían segir: 2Pt 3:8-9 „En þetta eitt má yður ekki gleymast, þér elskuðu, að einn dagur er hjá Drottni sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur. Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“

Hvernig ættum við að lifa meðan við bíðum komu Krists? Biblían segir: Tt 2:11-14 „Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum. Hún kennir oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum, í eftirvæntingu vorrar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni. Hann gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.“

Hvernig verður heimurinn þegar Kristur kemur aftur? Biblían segir: Mt 24:37-39 „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.“

Verður koma Krists tími endurgjalds? Biblían segir: Mt 16:27 „Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum, og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans. Opb 22:12 Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er.“

Hvers vegna kemur Kristur aftur? Biblían segir: Heb 9:28 „Þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.“

Við endurkomu Jesú munum við upplifa raunveruleika frelsunaráformsins. Biblían segir: 1Kor 1:7-8 „...svo að yður brestur ekki neina náðargjöf meðan þér væntið opinberunar Drottins vors Jesú Krists. Hann mun og gjöra yður staðfasta allt til enda, óásakanlega á degi Drottins vors Jesú Krists.“