Home / Biblíuefni / Ákvarðanir

Ákvarðanir

Fyrsta skrefið til að taka góða ákvörðun er að kynna sér staðreyndir. Biblían segir: Ok 18:13 „Svari einhver áður en hann heyrir, þá er honum það flónska og skömm.“

Næsta skref í ákvörðunartökunni er að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum. Biblían segir: Ok 18:15 „Hjarta hins hyggna aflar sér þekkingar, og eyra hinna vitru leitar þekkingar.“

Þriðja meginreglan er svo að heyra báðar hliðar málsins. Biblían segir: Ok 18:17 „Hinn fyrri sýnist hafa á réttu að standa í þrætumáli sínu, en síðan kemur mótpartur hans og rannsakar röksemdir hans.“

Erfiðleikar við að taka ákvörðun? Guð mun hjálpa. Bbiblían segir: Jk 1:5-8 „Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast. En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi. Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla, að hann fái nokkuð hjá Drottni.“

Treystið Guði fremur en eigin hyggjuviti. Biblían segir: Ok 3:4-6 „þá munt þú ávinna þér hylli og fögur hyggindi, bæði í augum Guðs og manna. Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“

Bænin hjálpar við ákvarðanatöku. Jesús notaði þá aðferð áður en hann valdi lærisveinana. Biblían segir: Lk 6:12-13 „En svo bar við um þessar mundir, að hann fór til fjalls að biðjast fyrir og var alla nóttina á bæn til Guðs. Og er dagur rann, kallaði hann til sín lærisveina sína, valdi tólf úr þeirra hópi og nefndi þá postula.“

Það er mikilvægt að vera auðmjúkur þegar við biðjum Guð um hjálp við ákvarðanatöku. Biblían segir„ Sl 25:9 „Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.“